Á Ströndum eru frásagnir tengdar örnefnum og landslagi einstaklega ríkulegur menningararfur. Sögur og sagnir um drauga og tröll, álagabletti og álfa, galdra og skrímsli, og allskonar aðra sögustaði í landslaginu, er að finna á hverjum bæ. Sumar sögurnar eru gamlar, allt frá fyrstu öldum byggðar, sumar um landsnámsmenn eða staði sem blessaðir voru af Guðmundi biskup góða. Aðrar eru frá síðari öldum og segja til dæmis frá margvíslegum samskiptum fólksins í landinu og huldra vætta eða viðburðum sem tengjast landslaginu og skýra út örnefni.

Margar af þessum sögum er að finna í prentuðum þjóðsagnasöfnum og skjalasöfnum, viðtölum hjá Árnastofnun eða í örnefnaskrám, en ennþá fleiri eru óskráðar þótt þær séu enn þann dag í dag sagðar og varðveittar í munnlegri geymd. Þessi ótrúlega fjölskrúðugi sagnaarfur gerir Strandir að merkilegu svæði sem hefur sérstöðu í Vestur-Evrópu. Hér hafa sögurnar varðveist og þekkjast margar enn. Til að varðveita og miðla þessum menningararfi Strandafólks til framtíðar og kynna ríkidæmi svæðisins á þessu sviði fyrir öllum sem áhuga hafa á frásagnarlist og þjóðfræðum, er í þessu verkefni verið að búa til kort af sögustöðum á Ströndum, úr prentuðum heimildum, skjalasöfnum og munnlegri geymd.

Þetta verkefni byggist á alþjóðlegu samstarfi Rannsóknaseturs HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofu, Sauðfjárseturs á Ströndum og vísindamanna frá Þýskalandi. Frá og með apríl 2023 styður þýski rannsóknasjóðurinn (DFG) okkur til þriggja ára, í þessu starfi sem til að byrja með tekur nyrstu hreppa Stranda til skoðunar, Árneshrepp og Kaldrananeshrepp. Við vonum að þú njótir kortsins sem við erum að vinna að. Við viljum sýna þjóðfræði landslagsins, auk þess að varðveita og miðla upplýsingum um fjölmargar sagnir af Ströndum og staðina þar sem þær eiga rætur.

Kortið vísar á alla sögustaði sem við höfum fundið hingað til, nema þá sem liggja á túni bæjar sem er í ábúð. Það er hægt að sjá upplýsingar um þessa staði ef þú smellir á bæjartákn á kortinu og velur síðan örnefni úr lista. Það er líka hægt að skrifa athugasemdir um einstaka staði fyrir neðan á síðu eftir að búið er að skrá sig inn. Skrifaðu gjarnan athugasemdir ef þú finnur villu eða ef það vantar upplýsingar. Allar athugasemdir, gagnrýni og ábendingar eru vel þegnar. Ef þú vilt ekki að staður á landi þínu sé sýnt eða ef þú vilt að staður á túni þínu sé sýndur vinsamlegast sendu okkur tölvupóst á strandasogur@lrz.uni-muenchen.de – kortið er verk í vinnslu.

Hér er hægt að skrá sig inn til að skrifa athugasemdir

Registration